Þriðjudagur, 30. nóvember 2010
Vinsældarkosning
Þá er vinsældarkosningunni lokið. Íslendingum gafst kost á að kjós "vinsælustu stelpuna" í Reykjavík. Stelpurnar sem kosnar voru hamast svo við að segja öllum hinum að kosningaþátttakan hafi bara verið eðlileg og í samræmi við það sem gerist hjá öðrum þjóðum, sbr ummæli Eiríks Bergmanns!!
Málið er að þeir sem ekki fóru á kjörstað senda þau skilaboð að þeir hafi ekki haft áhuga á að taka þátt í svona vinsældarkosningum. Það var ekki einu sinni þess virði að fara á staðinn til að skila auðu. Þegar svo margir mæta ekki eru það skýr skilaboð um að ekki hafi verið rétt að þessu staðið.
Er eitthvað lýðræðislegt við það að þeir sem þekktir eru úr fjölmiðlum, Silfri Egils, Kastljósinu eða öðrum miðlum hafi aðeins náð kjöri? Hvað með fólk af landsbyggðinni? Hvað með "venjulegt" fólk?
Niðurstaðan er þá í grófum dráttum; miðaldra háskólamenntað fólk úr 101.
Annars virðist Þorvaldur Gylfason, langvinsælasta stúlkan, ætla að stjórna þessu þingi eftir sínum hugmyndum, sbr Kastljós viðtal í kvöld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 16. október 2010
Refsivert að gera ekki neitt !
Ég veit ekki í hvaða draumaveröld þessi ríkistjórn er. Dæmigert var þegar mótmælin voru á Austurvelli um daginn þá kepptust stjórnarþingmenn að útskýra hverju var verið að mótmæla. Það var ekki verið að mótmæla ríkistjórninni eða ráðaleysi þeirrar stjórnar. Það var verið að mótmæla svo mörgu öðru eins og Landsdómi, vanda heimilanna, atvinnuleysi, bönkunum, Jóni Ásgeiri o.s.frv. os.frv. Þannig að ríkistjórnin þurfti ekkert að taka þetta til sín, það var ekki verið að mótmæla þeim!!!
Þetta sama fólk var aftur á móti með aðra skýringu veturinn 2008-2009 þegar fyrri ríkistjórn fór frá. Þá var verið að mótmæla ríkisstjórninni. Ég sé engan mun á þessum mótmælum og þeim fyrri, nema þó það að núna er venjulegt fólk að mótmæla, fjölskyldur sem halda þessu landi gangandi með vinnu sinni og sköttum.
Málið er bara að þegar stjórnmálamenn komast úr stjórnarandstöðu og í stjórn breytast þeir og verða eins og Ragnar Reykás. Dæmi eru eins og Steingrímur og AGS, hvernig hann talaði gegn því áður en hann vað ráðherra, Ögmundur sem froðufelldi þegar Guðlaugur fyrrverandi heilbrigðisráðherra boðaði niðurskurð og aðhald á þeim bæ í fyrri ríkistjórn og þannig mætti lengi telja.
Ég segi því, burt með þessa ríkistjón og allt þingið og fáum fólk til að stjórna þessu landi sem aldrei hefur setið á þingi, aldrei komið nálægt pólitík hjá ríkinu eða sveitarfélögum. Fáum hæfa stjórnendur, sem nóg er til af, til að koma þessu landi í gang aftur, til að nýta auðlindir þessa hvort sem er um að ræða einstaklinga eða landsins gæði.
Maður er orðinn létt þreyttur að horfa á Steingrím og Jóhönnu í sjónvarpinu í sama starfinu í 30 ár og segja svo í dag að þau beri enga ábyrgð á því ástandi sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Það að gera ekki neitt er mikil ábyrgð og getur verið refsivert. Það er það sem þessi ríkistjórn er að að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. október 2010
Niðurfærsla lána
Nú er verið að tala um almenna niðurfærslu lána og að lánastofnanir eða lífeyrissjóðirnir munu ekki hafa efni á að taka þann skell.
En ég spyr bara eins og fávís karlmaður, hvernig má það vera? Verðtryggðu lánin okkar hækka út af verðtryggingu, þ.a. ef verðtryggingin hefur hækkað lánið mitt um 20% síðustu 12 mánuðina þá hefur lánveitandinn "grætt" eða fengið þessa 20% viðbót á höfuðstólinn á þessum 12 mánuðum. Af hverju er þá ekki hægt að bakka og taka þessi 20% til baka og staðan er sú sama fyrir alla eins og hún var fyrir 12 mánuðum??
Af hverju er alltaf talað um að lánastofnanir séu af fá skell eða tap ef þessi niðurfærsla eigi sér stað? Hverju eru þær að tapa? Eru þær ekki að tapa því sem þau voru búin að græða?
Þetta er eins og eiga hlutabréf eða húsnæði. Virði íbúðar minnar er það sem ég sel hana á þegar ég sel hana, ekki það sem ég les um að ég gæti fengið fyrir íbúðina. Ef í ætla að búa í sama húsnæði næstu 10 árin og ég les í blöðunum og sé á fasteignasölum að íbúðaverð sé að hækka um einhver prósent á hverju ári þá er það ekki hagnaður minn. Svo þegar ég sel þá er verðið lægra en búið vara að segja mér, er ég það að tapa??
Sama á við um þessi lán. Lánveitandinn var aldrei búinn að hagnast um þessi 20%, það var bara bóla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 10. október 2010
Háttvirtur og hæstvirtur
Ég hjó eftir ummælum þingmanns Hreyfingarinnar, Margrétar Tryggvadóttur, á mánudaginn sem sjónvarpað var að hún sagðist ætla að hætta að ávarpa þingmenn og ráðherra með orðnum Háttvirtur og Hæstvirtur. Menn yrðu sko að vinna sér inn slíka upphefð áður en þeir yrðu ávarpaðir með slíkum orðum. Gott og vel.
Málið er bara að hér er ekki verið að ávarpa persónuna sem er í viðkomandi embætti, eins og þingmanna eða ráðherra, heldur embættið sjálft. Það er það sem virðing á að vera borin fyrir. Það er dæmigert um sjálfhverfi þingmannsins og eflaust annarra þingmanna að þeir haldi að það sé verið að tala til þeirra eigin persóna. Við eigum að bera virðingu fyrir þinginu, þeirri hugmyndafræði sem felst í þjóðkjörnu þingi og lýðræðinu, og svo þingsætinu sem slíku. Þingmenn sem sitja á þingi í dag hafa ekki hjálpað til við auka þá virðingu.
Virðingu eiga allir að hafa sem persónur, hvorki meiri eða minni þó þeir séu þingmenn eða ráðherrar. Virðingu skal einnig bera fyrir lýðræðinu, þinginu sem stofnun og þingsætinu sem embætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 10. október 2010
Listamannalaun
Undarlegt er að hlusta á umræðu um listamannalaun eða heiðurslaun listamanna í kjölfar óheppilegra orða Ásbjörns Óttarssonar á þingi um daginn. Listaelítan, sem nota bene eru ekki hinu raunverulegu listamenn, reis upp á afturlappirnar, froðufellandi af reiði yfir ummælunum þingmannsins. Málið er að hann sagði kannski það sem meirihluti landsmanna hugsar (sjá frétt á Mbl). Í ljósi niðurskurðar á öllum sviðum þá er ekki ósanngjarnt að skorið sé niður á þeim sviðum sem við teljum til lúxus. Hvaða sanngirni er í því að skera niður t.d. starf hjúkrunarfræðings á Ísafirði en halda óbreyttum heiðurslaunum listamanna til handa þingmanns Vinstri grænna, Þráins Bertelssonar? Nei, ekki bara óbreyttum heldur skal bæta í til að halda í við verðlagsþróun.
Styrkjum unga listamenn sem eru að gera nýja og skemmtilega hluti, ekki gamla þingmenn eða aðra sem þiggja slík listamannalaun af gömlum vana. Við eigum að styrkja sprotafyrirtæki en ekki fyrirtæki sem komin eru í fullan rekstur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 1. október 2008
Úrkynjun einkavæðingar
Jæja, nú á maður loks banka eins og hinir útvöldu.
Það er ansi kaldhæðnislegt að sjá eigendur Glitnis kvarta yfir því að þurfa að koma með alvöru tryggingar fyrir því að notaðir séu okkar peningar til að koma þeim úr vandræðum. Veit ekki betur að ef maður tekur lán í banka þurfi maður að sýna fram á ansi góðar tryggingar. Ég tala nú ekki um fyrir kaupum á hlutabréfum. Ef þau lækka í verði og veð banka er í þeim þá eru þeir fljótir að kalla eftir nýjum veðum eða taka bara bréfin upp í skuldina. Hver er munurinn. Eigum við ekki að gera sömu kröfu til þessara aðila eins og þeir til okkar. Það kemur kannski vel á vondan.
Peningarnir sem snarað var úr ríkissjóði (mínir peningar m.a.) samsvara því að hver 4 manna fjölskylda greiði eina milljón. Ég veit ekki með aðra, en ég er ekki til í að lána Glitni, Baugi, Stoðum eða Jóni Ásgeiri eina milljón nema ég fá eitthvað á móti. Ég tel það reyndar mjög rausnarlegt að þeir haldi þó 25% eftir. Svo koma þessir eigendur og gráta yfir því að bankanum hafi verið stolið af þeim. Spurningin er frekar hver stelur af hverjum. Eru bankarnir ekki búnir að "stela" ansi miklu af okkur í formi þjónustugjalda, vaxta og yfirdráttarvaxta. Það er sem sagt í lagi að stela litlu í einu, ef maður geri það bara nógu oft
Annars á, að mínu mati, einkavæðing banka og annarra fyritækja á að snúast um að einstaklingar (margir) eignist fyrirtæki og rekstur, ekki einstaklingur.
Vandamálið að mínu mati er að einkavæðing hefur snúist upp í andhverfu sína. Ég er ekki á móti einkavæðingu, síður en svo. Einkavæðing getur þó endað eins og ríkisvæðing, að einn eða fáir eigi allt. Þá sé ég ekki mun á því hvort ríkið eigi hlutinn eða einkaaðili. Þetta verður þá eins og þegar dýr (eða menn) tímgast í litlum hópum eða samfélögum og allir eru undan hvor öðrum. Samfélagið úrkynjast og deyr að lokum.
Til að einkavæðing gangi upp þarf því almennilegar leikreglur sem hægt er að fylgja eftir og menn skilja. Ekki ónýtar reglur, sem aðeins þeir allra ríkustu hafa efni á að ráða þá dýrustu lögfræðinga til að sveigja og beygja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. mars 2008
Álver í Helguvík
Yfirleitt leitast einstaklingar og fyrirtæki eftir því að fylgja öllum lögum og reglum sem sett eru við stofnun og rekstur fyrirtækja og því þykir mér það skjóta nokkuð skökku við að þegar það er gert þá komi misvitrir stjórnmálamenn fram á völlinn og vilja breyta öllu saman. Þá eiga að gilda einhverjar aðrar og nýjar reglur.
Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi var í Kastljósi í kvöld og skrifar á blogg sitt um þetta mál. Það eru nokkrar rangfærslur hans bloggi. Þar segir hann t.d. að hlutfall kvenna í álveri Norðuráls á Grundartanga sé 16% sem er rangt. Það skiptir svo sem ekki máli í sjálfu sér hvert hlutfallið er núna. Á morgun getur það verið allt annað. Í álveri Alcan í Straumsvík voru t.d. ráðnar fleiri konur en karlar til afleysinga 2006. Það fer m.a. eftir atvinnutækifærum á svæðinu í hvert skipti. Í álveri geta bæði konur og karlar unnið óháð líkamlegs atgervis.Svo er Dofri að reyna að vera sniðugur og tönglast á það eigi að byggja hálver. Hvað kallaði hann þá álver Norðuráls á Grundartanga þegar það hóf framleiðslu, 1998, upp á 60þ tonn? Eða álverið í Straumsvík upp á um 170þ tonn? Einhverstaðar verður að byrja. Ef Dofri hefur svona miklar áhyggjur á að ekki fáist raforka fyrir stærra álveri, því gleðst hann þá ekki yfir því. Þá verður væntanlega ekki stækkað.
Einnig bendir hann á að ekki sé vitað hvort álverið fái losunarheimildir. Ég man ekki betur að Umhverfisráðherra hefði sagt á sínum tíma þegar losunarheimildum var úthlutað síðast, að verkefnið væri komið of stutt á veg til að hægt væri að úthluta. Hvernig eiga fyrirtæki í þessu landi að geta gert plön ef fylgja á svona hundalogik.
Einnig er ég nokkuð viss um að Dofri er til í að leggja raflínur um allt Reykjanes ef á hinum endanum er netþjónabú. Varðandi hagstjórnina sem Dofri nefnir þá vil ég bara segja þetta. Fyrirtæki gera áætlanir einhver ár fram í tímann og staðan í dag verður örugglega ekki sú sama og eftir ár eða tvö. Því þarf að plana og byggja í dag sem á að skila tekjum á morgun, ekki öfugt. Hér á landi eru men sem framkvæma og aðrir sem bara tala.
Dofri er varaborgarfulltrúi okkar Reykvíkinga og ætti frekar að líta sér nær. Þegar ég kem akandi frá Suðurnesjum eða að norðan í stillu þá liggur yfirleitt áberandi gul slæða mengunar yfir borginni, sem Dofri dreymir um að fá að stjórna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 5. janúar 2008
Gefum blóð
Að gefa blóð er gott. Mér finnst að allir sem geta gefið blóð eigi að gefa blóð. Blóðbankinn á að gera meira að því að hvetja menn til að gefa blóð. Það að fá kaffi og með því á eftir, er ágætt en í sjálfu sér óþarfi. Að mínu mati ætti Blóðbankinn frekar að "verðlauna" menn sem gefa blóð reglulega með t.d. ýtarlegri skoðun, svona einskonar heilsutékki. Þannig gætu menn gefið blóð reglulega og fengið stöðumat á eigin heilsu, t.d. á 3 ára fresti eða eftir hverjar 10 blóðgjafir.
Annað sem Blóðbankinn má mikið bæta en það er upplýsingagjöf á heimasíðu. Þar þarf að vera hægt á einfaldan og fljótlegan hátt, fengið úr því skorið hvort viðkomandi sé liðtækur til blóðgjafar. Ég hef gefið blóð í einhverja tugi skipta. Tvisvar hefur komið fyrir að ég hef ekki mátt gefa vegna ferðalaga erlendis. Í bæði skiptin var um ferðir til landa sem alla jafna má gefa blóð eftir heimsókn til. Ástæðurnar voru þá tilteknar borgir í viðkomandi landi annarsvegar, og tilteknir mánuðir í hinu landinu, hinsvegar. Hvorugt var tekið fram á heimasíðu Blóðbankans á þeim tíma. Í bæði skiptin er maður að gera sér ferð til að gefa blóð, bíða á biðstofu og vera svo snúið frá. Slíkt væri hægt að koma í veg fyrir með ýtarlegri upplýsingum á heimasíðu.
Síðast tilraun mín til að gefa blóð var þó með endemum. Útkall frá blóðbankanum þann daginn og ég tilbúinn að stökkva. Ég hafði farið í speglun á hné og liðþófaaðgerð 6 vikum áður. Ég fór á heimasíðu Blóðbankans en fann ekki upplýsingar um nákvæmlega slíka aðgerð. Þó sagði að speglanir á ristli, maga o.þ.h þyrfti að líða 6 mánuðir og minni aðgerðir 3 mánuðir. Til að vera viss þá sendi ég póst, að fyrri reynslu, á Blóðbankann og fékk þau svör að líða þyrftu tvær vikur. Bingó, ég bruna af stað og mæti á svæðið. Úff, ansi margir að gefa í dag, þannig að biðin varð löng. Eftir slatta af djús og kaffiþambi og tveggja tíma lestur allra blaða og tímarita á svæðinu þá var loks komið að mér. Þá var mér tjáð að ég mætti ekki gefa því líða þyrfti 3 mánuðir. Bömmer
Hvaða skilaboð eru þetta? Eiga menn bara að segja nei við öllum spurningum um heilsufar og gefa svo bara. Það er göfugt að gefa blóð en flestir þurfa að vinna líka og hafa kannski ekki tíma til að vera margar klukkustundir í burtu við slíka athöfn.
Hér verður Blóðbankinn að taka sig á. Það er hægt á einfaldan hátt eins og áður er sagt. Betri og einfaldari upplýsingar á heimasíðuna og tengil sem hægt er að senda fyrirspurn sem svarað er inna klukkutíma. Slíkt myndi spara öllum tíma og vinnu, bæði starfsfólki Blóðbankans og blóðgjöfum. Ég veit að það er aldrei alveg hægt að koma í veg fyrir allar óþarfa komur en allavega að fækka þeim til muna.
Ég hætti ekki að gefa blóð út af þessu en það líður kannski eitthvað aðeins lengri tími þar til að ég gef næst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 31. maí 2007
Forgjöf GR-inga
Forgjöf 30% GR-inga var leiðrétt núna í byrjun sumars. Þessi leiðrétting hefur farið fyrir brjóstið á mörgum meðlimum annarra klúbba. Þeir segja, "hvaða réttlæti er það að GR-ingar fái hærri forgjöf á þeirra völlum?". Málið er einfalt. Vallarmat Korpu og Grafarholts var rangt. Nú er það rétt. Rétt skal vera rétt.
Tökum dæmi um mann sem keppt hefur í 80 kg þyngdarflokki í boxi eða júdó. Nú kemur í ljós að vigtin sem hann var mældur með í sínu heimafélagi hefur verið biluð en nú er búið að laga hana og skv henni er hann í öðrum þyngdarflokki, léttari. Á hann þá að keppa í nýja flokknum í innanfélagsmótum en þegar hann fer annað skal hann keppa áfram í gamla flokknum? Eða eins og Keilismenn í Hafnarfirði myndu segja, hann skal bara borða og þyngja sig?
Bloggar | Breytt 17.12.2007 kl. 08:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. maí 2007
Jafnrétti
Í kosningunum 2003 voru 73% fleiri atkvæði á bak við hvern þingamann í Kraganum (Suðvesturkjördæmi) en á bak við þingmann sem kom úr Norðvesturkjördæmi. Í Reykjavík voru það þó aðeins 65% !
Í núverandi kosningum hefur þetta misræmi enn aukist vegna fjölgunar á suðvestur horninu. Nú þarf um 70% fleiri atkvæði á bak við einn þingmann í Reykjavík en í Norðvesturkjördæmi. Hvert atkvæði í Kraganum er aðeins hálfdrættingur á við atkvæði greitt þingmanni úr Norðvesturkjördæmi..
Hvar er jöfnuðurinn í því? Enginn flokkur sem býður til Alþingis nefnir þetta í dag eða hefur í stefnuskrá sinni. Að mínu mati er grundvallarmannréttindi að allir þegnar lýðræðisríkis hafi jafnan atkvæðisrétt, ekki síður en að konur og karlar fái sömu laun fyrir sama vinnuframlag. Það myndi væntanlega heyrast í einhverjum ef vægi kvenatkvæða væri t.d. aðeins 50% af vægi karlatkvæða!
Þingmenn | Á kjörskrá 2003 | Á kjörskrá 2007 | Fjölgun |
| Atkvæði á þingmann 2007 | Hlutfall 2007 | Hlutfall 2003 | ||
Norðvesturkjördæmi | 9 | 21.221 | 21.126 | -0,45% | 2.347 | 1,00 | 1,00 | ||
Norðausturkjördæmi | 10 | 27.316 | 27.888 | 2,09% | 2.789 | 1,19 | 1,16 | ||
Suðurkjördæmi | 10 | 28.374 | 30.597 | 7,83% | 3.060 | 1,30 | 1,20 | ||
Suðvesturkjördæmi | 12 | 48.857 | 54.584 | 11,72% | 4.549 | 1,94 | 1,73 | ||
Reykjavík norður | 11 | 42.787 | 43.775 | 2,31% | 3.980 | 1,70 | 1,65 | ||
Reykjavík suður | 11 | 42.734 | 43.398 | 1,55% | 3.945 | 1,68 | 1,65 | ||
63 |
Taflan sýnir hlutfall atkvæða á bak við þingmann þar sem grunnurinn er 1 á bak við þingmann í Norðvesturkjördæmi.
Heimild: Kosning.is
Bloggar | Breytt 11.5.2007 kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Tenglar
RUV
Linkur á RUV
Áhugavert
Áhugaverðir tenglar
Sport
Íþróttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar